Folk
Ástgeir Kristinn Ólafsson. 27.02.1914.- 01.05.1985 Ástgeir Kristinn Ólafsson aka Ási í Bæ. Ási fæddist í Litla-Bæ í Vestmannaeyjum fyrir réttri öld. Foreldrar hans voru Ólafur Ástgeirsson sem var þekktur bátasmiður í Eyjum, og Kristín Jónsdóttir húsfreyja. Eftirlifandi eiginkona Ása er Friðmey Eyjólfsdóttir hjúkrunarfræðingur og eignuðust þau fjögur börn, en meðal þeirra eru Kristín, fyrrverandi alþingismaður, og Gunnlaugur menntaskólakennari. Ási ólst upp í Vestmannaeyjum og lauk prófi frá Samvinnuskólanum 1940. Hann fór ungur í sjóróðra á opnum vélbáti með föður sínum, var skrifstofumaður í Eyjum um hríð en lengst af sjómaður og útgerðarmaður og mikill aflakló eins og faðir hans og afi. Á unglingsárunum veiktist Ási af þrálátri beinátu í hægri fæti og missti við það fótinn síðar á ævinni. Þessi veikindin háðu honum og höfðu áhrif á viðkvæm unglingsárin og síðar skáldskap hans. Ási var afkastamikill rithöfundur en meðal bóka hans má nefna sjálfsævisögulega þætti, Sá hlær best; Granninn í vestri, ferðabók um Grænland; Breytileg ár, skáldsaga 1948; Eyjavísur, 1970; Korriró, skáldsaga 1974; Grænlandsdægur, ljóðaflokkur 1976; Skáldað í skörðin, frásagnaþættir 1978, og Þjófur í Seðlabanka, 1983. Þá gaf Ási út hljómplötu þar sem hann spilaði og söng eigin lög og texta. Ási flutti til Reykjavíkur 1968 og var um skeið ritstjóri Spegilsins. Hann var þó alla tíð tengdur Vestmannaeyjum órjúfanlegum böndum enda höfundur ýmissa þekktra þjóðhátíðarlaga og texta þeirra, ásamt þeim Oddgeiri Kristjánssyni, Lofti Guðmundssyni og Árna úr Eyjum. Ási er þekktastur fyrir texta við ódauðleg lög Oddgeirs, s.s. Sólbrúnir vangar, Ég veit þú kemur, og Heima. Hann var um flest dæmigerður eyjapeyi, harðduglegt náttúrubarn, vinafastur, bóhemískur og lífsglaður lífskúnstner. Hann lést á frídegi verkamanna 1985. Merkir Íslendinagar. Morgunblaðið 27. febrúar 2014, bls. 31
Title | Artist | Year | Type |
---|---|---|---|
Undrahatturinn | Ástgeir Kristinn Ólafsson | 1978 | Album |