voc,
Folk and Rock
Berglind Bjarnadóttir (1957-1986) Berglind (Linda) Bjarnadóttir var efnileg söngkona, einna þekktust fyrir framlag sitt með Lítið Eitt, en örlög hennar urðu önnur en ætlað var. Berlind (fædd 1957) ólst upp í Hafnarfirði og var einn stofnmeðlima Kórs Öldutúnsskóla 1965 en með kórnum fór hún í nokkrar utanlandsferðir, hún var fyrsti einsöngvari kórsins þá ellefu ára gömul. Hún þótti fljótt efnileg söngkona og gekk til liðs við þjóðlagasveitina Lítið eitt árið 1972 þá aðeins fimmtán ára gömul. Með sveitinni söng hún inn á tvær plötur og varð fyrir vikið landsþekkt söngkona þótt ekki væri hún ýkja gömul. Samhliða menntaskólanámi annaðist hún óskalagaþátt fyrir börn hjá Ríkisútvarpinu og söng með Pólýfónkórnum og Þjóðleikhúskórnum. Berglind lærði enn fremur söng hjá Elísabetu Erlingsdóttur og að loknu burtfararprófi 1978 fór hún í frekara söngnám til Svíþjóðar. Þar lauk hún m.a. einsöngvarakennaranámi og stýrði kór Íslendingafélagsins sem þá var starfandi þar. Glæsilegur söngferill blasti við Berglindi en veikindi settu þá fljótlega strik í reikninginn og lögðu hana að lokum að velli í árslok 1986, aðeins tuttugu og níu ára gamla. Söng Berglindar er ekki að finna á mörgum plötum öðrum en þeim sem Lítið eitt sendi frá sér, þó söng hún inn á vísnaplötuna Út um græna grundu (1976) og jólaplötuna Jólastrengir (1977), auk þess að syngja bakraddir með hljómsveitinni Eik á litla plötu þeirra sem út kom 1975.
Lítið Eitt |